1. grein.
Íþróttabandalag Reykjanesbæjar, skammstafað ÍRB er héraðssamband íþróttafélaga í Reykjanesbæ. Það starfar samkvæmt lögum ÍSÍ. Heimili og varnarþing er í Reykjanesbæ.
2. grein.
Tilgangur ÍRB er að vinna að eflingu og skipulagningu íþróttastarfsemi í Reykjanesbæ og hafa forystu um sameiginleg íþróttamál, svo sem lög ÍSÍ mæla fyrir, m.a. með því að annast samstarf fyrir hönd bandalagsaðilanna við bæjarstjórn og aðra opinbera aðila.
3. grein.
Öll íþróttafélög í Reykjanesbæ, sem hafa íþróttir á stefnuskrá sinni, eiga rétt á að gerast aðilar að ÍRB, enda fullnægi þau þeim skilyrðum sem á hverjum tíma gilda um frjálsa íþróttastarfsemi og lögum ÍSÍ.
4. grein.
Óski félag eftir að gerast aðili að ÍRB, skal það senda stjórn ÍRB umsókn sína ásamt lögum félagsins, skýrslu um stofndag þess og ár, stjórn þess og tölu félagsmanna. Uppfylli félagið inntökuskilyrði þessara laga, öðlast það réttindi í bandalaginu eftir að umsókn þess er samþykkt.
Stjórn ÍRB úrskurðar um inntöku nýs félags, en ársþing staðfestir.
5. grein.
Aðildarfélög skulu senda ársskýrslu og áritaðan ársreikning til stjórnar ÍRB fyrir 31. mars ár hvert. Skýrslur þessar skal senda í tvíriti. Stjórn ÍRB sendir síðan heildarskýrslu, skýrslur félaganna til ÍSÍ samkvæmt lögum ÍSÍ.
Til að framfylgja eftirlitsskyldu sinni skal ÍRB hafa fullan aðgang að bókhaldi og fylgiskjölum aðildarfélaga sinna og ef ástæða þykir til, getur stjórn eða framkvæmdastjórn tilnefnt sérstakan skoðunarmann reikninga fyrir aðildarfélag/sérráð, og skipað ítarlega rannsókn á fjárreiðum viðkomandi aðila. Aðildarfélag/sérráð getur krafist þess að ÍRB feli löggildum endurskoðanda að kanna bókhaldsgögnin.
6. grein.
Gjöld aðildarfélaga til ÍRB miðast við tölu skattskyldra félagsmanna, þ.e. 18 ára og eldri. Ársþing bandalagsins ákveður upphæð gjaldsins fyrir ár hvert. Skýrslu- og reikningsár ÍRB miðast við almanaksárið.
7. grein.
Hvert það aðildarfélaga sem ekki hefur sent skýrslur og reikninga sbr. 5.gr. og greitt lögboðin gjöld fyrir 31. mars missir atkvæðisrétt sinn á næsta þingi ÍRB og missir einnig rétt sinn til að tilnefna fulltrúa á íþróttaþing. Líði annað ár svo, að aðildarfélag geri ekki skil á skýrslum, reikningum og gjöldum, skal næsta þing taka ákvörðun um hvort aðildarfélaginu skuli vikið úr ÍRB.
Mæti enginn þingfulltrúi til þings frá aðildarfélagi þá skerðist lottóúthlutun viðkomandi aðildarfélags um 50% fram að næsta þingi.
8. grein.
Íþróttabandalagi Reykjanesbæjar er stjórnað af:
a) Ársþingi
b) Stjórn
9. grein.
Ársþing ÍRB er fulltrúaþing og er æðsta framkvæmdavald um málefni bandalagsins. Ársþingið skal haldið árlega á tímabilinu 1. maí til 31. júlí. Boða skal þingfulltrúa til ársþings með eins mánaðar fyrirvara og aftur bréflega með einnar viku fyrirvara og skal fylgja dagskrá þingsins, ásamt ársskýrslum og reikningum ÍRB, kjörbréfaeyðublöð og þær tillögur sem borist hafa og stjórn hyggst leggja fyrir þingið.
10. grein.
Hvert aðildarfélag hefur rétt til að senda fulltrúa á ársþing. Skal tala fulltrúa miðuð við tölu skattskyldra félagsmanna, þannig að félag með:
1-50 félagsmenn hljóti tvo fulltrúa
51-100 þrjá fulltrúa
101-150 fjóra fulltrúa
151-200 fimm fulltrúa
201-300 sex fulltrúa
301-400 sjö fulltrúa
401-500 átta fulltrúa
501-600 níu fulltrúa
601 og þar yfir tíu fulltrúa
Stjórn félagsins skal útfylla kjörbréf fyrir fulltrúa sína og sjá um að það sé komið á ársþingið fyrir þingbyrjun.
11. grein.
Á ársþingi ÍRB eiga sæti með atkvæðisrétt, fulltrúar þeir sem aðildarfélög ÍRB hafa kjörið til þings samkv. 10. grein, sbr. þó 7. gr. svo og einn fulltrúi frá hverju sérráði á bandalagssvæðinu. Engum fulltrúa er heimilt að fara með fleiri en eitt atkvæði.
Rétt til þingsetu með málfrelsi og tillögurétt hafa: framkvæmdastjóri ÍRB, framkvæmdastjórn ÍSÍ og UMFÍ, íþróttafulltrúi ríkisins, íþrótta- og tómstundafulltrúi Reykjanesbæjar og fulltrúi Reykjanesbæjar.
12. grein.
Dagskrá ársþings ÍRB skal vera þessi:
1. Þingsetning.
2. Kosning þriggja mannakjörbréfanefndar.
3. Kosning þingforseta og þingritara.
4. Ávarp gesta.
5. Ársskýrsla stjórnar lögð fram og reikningar.
6. Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga. Atkvæði greidd um reikningana.
7. Lagabreytingar, ef fyrir liggja.
8. Tillögur og mál er liggja fyrir þinginu.
9. Fjárhagsáætlun næsta starfsárs og tillögur um gjöld aðildarfélaga til ÍRB.
10. Lagðar fram skriflegar uppástungur um formann fyrir næsta ár.
11. Kosningar.
a) Kosinn formaður.
b) Kosnir tveir stjórnarmenn til tveggja ára.
c) Kosnir tveir varamenn til eins árs.
d) Kosnir tveir skoðunarmenn og tveir til vara.
e) Kosnar fastanefndir, ef þingið ákveður.
12. Lýst tilnefningu aðildarfélaga á fulltrúum til þings ÍSÍ og kosnir viðbótarfulltrúar samkvæmt 14. grein.
13. Önnur mál.
14. Þingslit.
13. grein.
Í málum sem tilkynnt hafa verið í þingboði, hvort sem er á reglulegu ársþingi eða aukaþingi, ræður einfaldur meirihluti atkvæða úrslitum. Til að taka megi til meðferðar á þinginu mál, sem ekki er getið í fundarboði þarf samþykki 2/3 greiddra atkvæða og 4/5 greiddra atkvæða til að samþykkja þau. Til lagabreytinga þarf samþykki 2/3 greiddra atkvæða.
14. grein.
Fulltrúa á íþróttaþing skal kjósa á ársþingi ÍRB. Bandalagið á rétt á einum fulltrúa og varamanni fyrir hver 300 gjaldskyldra félagsmanna í aðildarfélögum. Fulltrúana skal kjósa þannig:
a) Aðildarfélög sem hafa 300 félagsmenn eða fleiri, eiga rétt á að tilnefna sjálf einn fulltrúa og einn varamann fyrir hver 300 gjaldskyldra félagsmanna sinna. Noti þau þennan rétt, skulu þau leggja fulltrúalista sinn fram í þingbyrjun.
b) Aðildarfélög sem hafa færri en 300 félagsmenn, mega tilnefna í sameiningu fulltrúa fyrir samanlagða tölu félagsmanna sinna, á sama hátt og segir í a)-lið.
c) Þegar aðildarfélög hafa þannig tilnefnt fulltrúa fyrir þá tölu félagsmanna sinna sem deilanleg er með 300, þá eru umframtölur í þessum félögum lagðar saman, svo og félagsmannatala þeirra félaga sem ekki hafa notað sér tilnefningarrétt sinn og kýs nú þingið einn fulltrúa og einn varamann fyrir hver 300 þessara félagsmanna. Verði afgangur yfir 150 má þingið kjósa einn fulltrúa og einn varamann að auki saman ber lög ÍSÍ.
d) Heimild er að vísa kjöri á þingfulltrúum á íþróttaþing ÍSÍ til stjórnar ÍRB.
15. grein.
Aukaþing skal halda, ef tilmæli koma um það, samkvæmt fundarsamþykkt frá minnst 2/3 hluta aðildarfélaga eða ef stjórn ÍRB telur þörf á.
Boða skal þingfulltrúa til aukaþings bréflega með tveggja vikna fyrirvara og skal dagskrá þingsins fylgja. Hafa aðildarfélögin sama fulltrúafjölda og sömu réttindi og á næsta þingi á undan, enda hafi þau ekki misst hlutgengi sitt. Á aukaþingi má ekki breyta lögum bandalagsins, né kjósa nýja stjórn.
Tilhögun aukaþingsins skal vera þessi:
1. Þingsetning.
2. Kosin þriggja manna kjörbréfanefnd.
3. Kosning þingforseta og þingritara.
4. Tekin til meðferðar þau mál er gefið hafa tilefni til aukaþingsins og tilkynnt voru með þingboðinu.
5. Á aukaþingi má ekki gera breytingar á lögum eða öðrum reglum ÍRB, né kjósa í stjórn þess, ef meirihluti stjórnar hefur sagt af sér eða hætt störfum af öðrum ástæðum, eða stjórnin að eigin dómi hefur orðið óstarfhæf. Bráðabirgðastjórnin situr fram á næsta ársþing.
6. Önnur mál, sem upp kunna að verða borin, ef þingið leyfir að taka fyrir.
7. Þingslit.
16. grein.
Stjórn ÍRB skipa fimm aðalmenn og tveir varamenn kosnir á ársþingi. Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum.
17. grein.
Stjórn ÍRB skal sjá um allar framkvæmdir bandalagsins og vinna að málum þess. Stjórninni er heimilt að skipa starfsnefndir til að sjá um og framkvæma ákveðna þætti í umboði stjórnar. Formaður skal kalla saman fundi minnst einu sinni í mánuði. Að öðru leyti setur stjórnin sér sjálf starfsreglur. Stjórnarfundir eru lögmætir, ef meirihluti stjórnar mætir og fundur hefur verið boðaður samkvæmt starfsreglum.
18. grein.
Stjórn ÍRB fer með stjórn sérfræðilegra málefna innan héraðs, þeirra íþróttagreina þar sem sérráð eru ekki starfandi. Stjórnin getur skipað sérstaka nefnd um þessi málefni telji hún þess þurfa.
19. grein
Stofna má sérráð sem fer með málefni viðkomandi íþróttagreinar innan ÍRB. Um starfsemi sérráðs skal gera starfsreglur sem samþykktar eru af stjórn ÍRB. Sérráð lúta fjárhagslegri yfirstjórn ÍRB. Þau sérráð sem hafa sjálfstæðan fjárhag, með samþykki stjórnar ÍRB, þurfa að skila inn skýrslu um starfsemi síðasta árs og ársreikningi fyrir 31. mars ár hvert. Hafi skýrslur þessar ekki borist fyrir 1. maí missir ráðið rétt sinn til að tilnefna fulltrúa á þing ÍRB.
20. grein.
Ágreiningsmálum skal vísað til dómstóla ÍSÍ.
21. grein.
ÍRB verður ekki slitið nema á ársþingi og þá því aðeins að 4/5 atkvæðisbærra fulltrúa sem eiga rétt til setu á þinginu samkvæmt lögum þessum, samþykki þá ráðstöfun. Með slíkri samþykkt er störfum þess þings tafarlaust lokið, en fráfarandi stjórn skal sitja áfram með fullu umboði. Skal hún boða til annars þings þremur mánuðum síðar. Sé þá aftur samþykkt með 4/5 hlutum atkvæðisbærra fulltrúa að slíta bandalaginu er því þá slitið.
Sé ÍRB þannig löglega slitið skulu eignir þess renna í sérstakan sjóð og skuldir greiddar og eignum síðan, ef einhverjar eru, skipt milli aðildarfélaga í réttum hlutföllum við félagatölu þeirra.
Við félagsslit tilnefnir hvert félag í ÍRB einn fulltrúa í sérstaka skilanefnd, en auk þess á fráfarandi stjórn ÍRB sæti í skilanefndinni og er formaður ÍRB jafnframt formaður skilanefndar. Skal uppgjöri vegna félagsslitanna lokið innan árs frá því endanleg ákvörðun var tekin um félagsslitin.
22. grein.
Lög þessi öðlast gildi þegar ársþing ÍRB og framkvæmdastjórn ÍSÍ hefur staðfest þau.
Allur réttur áskilinn 2024 • Íþróttabandalag Reykjanesbæjar