Ferlið var sett upp í samstarfi við Reykjanesbæ. Ferlinu er ætlað að tryggja að íþróttafélög geti leitað til Reykjanesbæjar með málefni, tengd iðkendum, sem þarfnast aðstoðar fagaðila.
Viðbragðsáætlun þessi tekur til barna og starfsmanna/sjálfboðaliða í starfi innan íþróttahreyfingarinnar.
Þó svo að hér sé verið að fjalla um málefni barna og unglinga viljum við einfalda málið með því að nota orðið börn yfir einstaklinga á aldrinum 0-18 ára. Orðið starfsmaður verður hér eftir notað um alla þá sem koma að barnastarfi innan íþróttahreyfingarinnar það er þjálfara, sjálfboðaliða, stjórnir, starfsmenn íþróttafélaga, starfsmanna íþróttamannvirkja og foreldra. Yfirmenn og aðrir samstarfsmenn geta gegnt mikilvægu stuðningshlutverki ef starfsmaður verður fyrir áfalli.
Ennfremur getur stuðningur starfsmanna við börn sem lenda í áfalli haft mikið að segja. Oft felst mesta hjálpin í að vera góður hlustandi, vera til staðar og gefa viðkomandi tíma. Við megum aldrei vanmeta gildi þess að ættingjar, vinir, vinnufélagar og aðrir í samfélaginu sýni þeim sem eiga um sárt að binda samkennd og stuðning í orði og verki. Aðstæður geta þó verið þannig að utanaðkomandi aðstoð sé nauðsynleg. Mjög mikilvægt er að starfsmenn haldi þagnarheit og trúnað sinn við þá sem lenda í áfalli.
Þessi viðbragðsáætlun Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands er einungis grunnur fyrir viðbragðsáætlanir íþróttafélaga innan íþróttahreyfingarinnar. Æskilegt er að íþróttafélög deili með sér hugmyndum og reynslu á þessu sviði og komi sér upp eigin viðbragðsáætlun þar sem atriði úr þessu skjali eru höfð til hliðsjónar.
Hér er hvorki fjallað um einkenni sorgar né einkenni sjúkdóma. Bent skal á að hægt er að finna slíkar upplýsingar í bókum, á veraldarvefnum o.s.frv. Í mörgum tilfellum er hér bent á aðstoð kirkju, presta en hafa ber í huga að það hentar ekki í öllum tilfellum.
Taka ber tillit til annarra trúarbragða og trúarskoðana.
Þessi viðbragðsáætlun er staðfærð og byggð á áætlun sem ÍTR tók saman árið 2008.
Hér má finna viðbragðsáætlun ÍSÍ í heild sinni.
Einelti getur átt sér stað nánast hvar sem er og þar af leiðandi einnig innan íþróttahreyfingarinnar. Áhrifaríkasta tækið sem íþróttafélag hefur yfir að ráða gegn einelti eru iðkendurnir sjálfir. Þó að meirihluti þeirra eigi ekki beina aðild að einelti veit þessi hópur oft af eineltinu löngu áður en hinir fullorðnu fá vitneskju um það. Mikilvægt er að íþróttafélaginu takist að virkja þennan hóp „hlutlausra áhorfenda“ til að taka afstöðu gegn einelti í verki og tilkynna til forráðamanna íþróttafélags eða starfsfólks íþróttamannvirkis ef þeir verða varir við eða vitni að slíku. Mikilvægt er að trúnaður ríki milli barna og fullorðinna og að nafnleynd sé virt. Æskilegt væri að veita starfsfólki íþróttafélags þjálfun í að þekkja einkenni eineltis.
Í Aðgerðaráætlun gegn einelti og annarri óæskilegri hegðun má meðal annars finna upplýsingar um fyrirbyggjandi aðgerðir, skilgreiningu og helstu birtingarmyndir eineltis. Þá koma einnig fram hugmyndir að verklagsreglum íþróttafélags sem hægt er að grípa til ef einstaklingur verður fyrir einelti eða annarri óæskilegri hegðun.
Íþróttafélögum er heimilt að gera þessar reglur að sínum, breyta þeim og aðlaga eins og gagnast þeim best. Hugsunin með framsetningu þessarra reglna er fyrst og fremst sú að færa íþróttafélögum einhvers konar tæki sem þau geta nýtt sér í starfinu.
Ef grunur leikur á að einelti eða önnur óæskileg hegðun eigi sér stað innan félags ætti að taka á málinu sem allra fyrst. Mælt er með því að á vefsíðu íþróttafélags sé að finna tilkynningarblað þar sem hægt er að koma ábendingum, m.a. um einelti, til skila til fulltrúa félagsins.
Aðgerðaráætlun má nálgast hér.
Hér má finna bækling um kynferðisofbeldi í íþróttum
ÍRB hvetur alla aðila sem koma að íþróttastarfi að hafa þessi viðmið að leiðarljósi.
Allur réttur áskilinn 2025 • Íþróttabandalag Reykjanesbæjar